Sunday, August 21, 2011

Virðingarvottur til blóma og Krumma

Farið er að halla á síðari hluta sumars og það er eins og blómin keppist um að vera sem flottust og teygja sig sem best þau geta í áttina til manns: "Veldu mig, veldu mig, gerðu það veldu mig!". Stundum lætur maður undan og klippir á naflastrengina í viðleitni til þess að njóta þeirra lengur með því að setja þau í vasa. Það gengur í nokkra daga, en síðan fjarar lífið út smátt og smátt, þar til blómin verða að dufti.

Þetta veldur mér oft svolítilli togstreitu - á ég að leyfa þeim að vera og deyja í sínu náttúrulega umhverfi eða á ég að leyfa mér og öðrum að njóta þeirra og fegra um leið mitt umhverfi? Streitan sem þetta siðferðilega tog milli tveggja möguleika veldur er þó ekki svo mikil að ég sé komin á bömmer yfir þessu. Ég vil bara hafa blóm í kringum mig og njóta þeirra sem lengst, því þau veita mér einlæga ánægjutilfinningu. Þau eru óður til lífsins.











Sem virðingarvottur fyrir þá hamingju sem þau veita, skelli ég hér inn nokkrum myndum sem ég tók í sumar.




















Annan virðingarvott langar mig að sýna, en það er til hans Krumma, kannski betur þekktur sem Gunnar Hrafn eða Sigurbjörn femínisti. Sem Krummi hélt Gunnar Hrafn úti dótabloggi sem ég fylgdist með. Klippt var á lífsstrenginn allt of snemma hjá Krumma sem dó aðeins 36 ára gamall nú í sumar. Við minningarathöfn sem fram fór fyrir stuttu voru lesin upp minningarorð eftir tvær góðar vinkonur hans, þær Elísabetu Arnardóttur og Þórdísi Gísladóttur. Í þeim minningarorðum var lesin upp síðasta færslan á dótabloggi Krumma þar sem kemur fram dálæti hans fyrir fallegum munum og blómum. Þessum áhuga deili ég með honum og langar að lokum að setja inn mynd af vasa sem mér ákostnaðist í sumar, sem ég er viss um að honum hefði fundist fallegur. Hann er úr fallegu bláu gleri (sem hann elskaði) og aðskorin um mittið og gæti vel fallið undir þá lýsingu að vera eins og "bústin kona í laginu". Gunnar Hrafn var líka óður til lífsins með sitt jákvæða og lífsglaða viðhorf sem skein í gegn í skrifum hans. Ég hitti hann aldrei í eigin persónu og finnst ég fátækari fyrir vikið, því ég held að manneskjur eins og hann séu fágætar. Ég vil þakka fyrir að hafa kynnst honum gegnum skrifin, m.a. sem Sigurbjörn femínisti og veit að áhrifa hans munu gæta ævilangt hjá mér. Samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu Gunnars Hrafns og vinum. *Knúz*




3 comments:

  1. Flottur sá blái, tékkneskur Sklo vasi, ef mér skjöplast ekki. Ég er líka nokkuð viss um að Gunnari hefði þótt hann fínn:)

    ReplyDelete
  2. Takk fyrir þetta Beta. Var að flétta þessu upp og fann myndir sem svipar mjög til hans og eru einmitt Sklo vasar. Hann er ekki merktur, en á síðunni er sagt að þeir séu það sjaldnast.

    Ég er mjög hrifin af þessum vasa - liturinn verður einstaklega fallegur þegar birtan fer í gegnum vasann.

    ReplyDelete
  3. Takk fyrir kveðjuna og knúz.
    María Gunnars Hrafnssystir

    ReplyDelete