Sunday, August 21, 2011

Virðingarvottur til blóma og Krumma

Farið er að halla á síðari hluta sumars og það er eins og blómin keppist um að vera sem flottust og teygja sig sem best þau geta í áttina til manns: "Veldu mig, veldu mig, gerðu það veldu mig!". Stundum lætur maður undan og klippir á naflastrengina í viðleitni til þess að njóta þeirra lengur með því að setja þau í vasa. Það gengur í nokkra daga, en síðan fjarar lífið út smátt og smátt, þar til blómin verða að dufti.

Þetta veldur mér oft svolítilli togstreitu - á ég að leyfa þeim að vera og deyja í sínu náttúrulega umhverfi eða á ég að leyfa mér og öðrum að njóta þeirra og fegra um leið mitt umhverfi? Streitan sem þetta siðferðilega tog milli tveggja möguleika veldur er þó ekki svo mikil að ég sé komin á bömmer yfir þessu. Ég vil bara hafa blóm í kringum mig og njóta þeirra sem lengst, því þau veita mér einlæga ánægjutilfinningu. Þau eru óður til lífsins.Sem virðingarvottur fyrir þá hamingju sem þau veita, skelli ég hér inn nokkrum myndum sem ég tók í sumar.
Annan virðingarvott langar mig að sýna, en það er til hans Krumma, kannski betur þekktur sem Gunnar Hrafn eða Sigurbjörn femínisti. Sem Krummi hélt Gunnar Hrafn úti dótabloggi sem ég fylgdist með. Klippt var á lífsstrenginn allt of snemma hjá Krumma sem dó aðeins 36 ára gamall nú í sumar. Við minningarathöfn sem fram fór fyrir stuttu voru lesin upp minningarorð eftir tvær góðar vinkonur hans, þær Elísabetu Arnardóttur og Þórdísi Gísladóttur. Í þeim minningarorðum var lesin upp síðasta færslan á dótabloggi Krumma þar sem kemur fram dálæti hans fyrir fallegum munum og blómum. Þessum áhuga deili ég með honum og langar að lokum að setja inn mynd af vasa sem mér ákostnaðist í sumar, sem ég er viss um að honum hefði fundist fallegur. Hann er úr fallegu bláu gleri (sem hann elskaði) og aðskorin um mittið og gæti vel fallið undir þá lýsingu að vera eins og "bústin kona í laginu". Gunnar Hrafn var líka óður til lífsins með sitt jákvæða og lífsglaða viðhorf sem skein í gegn í skrifum hans. Ég hitti hann aldrei í eigin persónu og finnst ég fátækari fyrir vikið, því ég held að manneskjur eins og hann séu fágætar. Ég vil þakka fyrir að hafa kynnst honum gegnum skrifin, m.a. sem Sigurbjörn femínisti og veit að áhrifa hans munu gæta ævilangt hjá mér. Samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu Gunnars Hrafns og vinum. *Knúz*
Tuesday, May 31, 2011

Skran eða ekki skran? Það er spurningin...

Skransalan á Þurá var töfraheimur út af fyrir sig. Sveitasælan svo áþreifanleg; sól í heiði, hestar á beit, heybaggar á víð og dreif, krúttlegur bóndabær og gestrisið fólk sem bauð okkur inn í útihúsin þar sem salan fór fram. Hver sentimetri var vel nýttur með hæfilegri blöndu af gömlum söguþrungnum hlutum og ekki eins gömlum en gáskafullum hlutum. Fornlegar virðulegar fulningahurðir á 5.000.- kr., lampar á 500 kr, og plasteyrnalokkar á 50.-, svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu fór ég ekki tómhent heim. Keypti af Elísabetu Arnardóttur  bráðnauðsynlega bréfahillu sem hjálpar mér að halda öllu í röð og reglu:

Og þrír ömmusúpudiskar. Saman kostuðu diskarnir og hillan 500 kr.


Af húsráðendum keypti ég tvo lampa, samtals á kr. 2.000 kr. 
og ýmislegt fleira smálegt, rammar, pils, spöng og þessa fínu eyrnalokka sem kostuðu aðeins 50 kr. 

Þurá-ævintýrið kostaði mig í allt undir 5.000 kr. sem ég tel vel sloppið. En aðalmálið er að hafa gaman að þessu og ég fæ alltaf kikk út úr því að kaupa hluti sem farið hafa manna á milli og fengið að njóta sín hver á sinn hátt á hinum ýmsu heimilum. Sálin og sagan fylgir þeim.Saturday, April 30, 2011

Sól, sól, skín á mig...

Ósjálfrátt fór þetta lag að hljóma í huga mér þegar ég leit út um gluggann og horfði á snjókornin falla af léttúð til jarðar, eins og ekkert væri eðlilegra á þessum tíma árs. Lagið hljómaði ekki með gleðilegum hönnuvaldísaróm, heldur frekar eins og vonlaus bæn um eitthvað sem ekki eru miklar líkur á að verði að veruleika. Aftur varð mér hugsað til  sænsku ömmu minnar sem bjó á Korsíku á síðari hluta ævi sinnar. Hugurinn reikar til Palombaggja-strandarinnar, þar sem söngtífurnar láta hressilega heyra í sér í trjánum. Klifrað er alla leið upp á topp, þaðan sem útsýnið er stórfenglegt yfir þessa fallegu, löngu strönd - mmm...ljúfar og hlýjar æskuminningar!

Amma var nokkuð lagin í höndunum og þó hún hafi búið í villu sem í mínum barnshuga var eins og höll, þá fór hún sparlega með hluti og fjármuni. Á sumrin leigði amma húsið og fyrstu árin tjölduðu þau hjónin annars staðar allt sumarið. Síðar keyptu þau sér pínulitla íbúð í fjöllunum og dvöldu þar sumarlangt.

Amma var með stóran garð og hún hafði gaman af því að dytta í honum. Þar mátti finna hin ýmsu ávaxtatré, s.s. appelsínutré, sítrónutré, perutré og fleiri. Manni fannst ekkert vera henni ofviða og var hún dugleg að sauma og búa til hluti. Einn hlut á ég, úr hennar smiðju, sem mér þykir óendanlega vænt um. Reyndar á ég hann ekki lengur, þar sem það er í hlutarins eðli að ganga mann af manni (eða konu af konu í þessu tilviki) og er dóttir mín því réttmætur eigandi hans í dag. Það er þessi yndislegi bangsi:


Þeir voru reyndar tveir, bangsarnir, en ekki er vitað hvað varð um hinn sem var dökkbrúnn. Eldri bróðir minn, sem er einu og hálfu ári eldri en ég, fékk hann í fæðingargjöf (þ.e. þennan brúna). Ég fékk þennan hér þegar ég fæddist, fyrir tæpum 50 árum síðan. Hann er búinn til úr lambsskinni og fylltur með einhvers konar rifnu tauefni. Skinnið byrjaði að eyðast upp fyrir nokkrum árum og komið er stórt gat á mallakútann.

Þófar eru úr leðri og fagmannlega saumaðir á skinnið, því ekki hefur raknað úr saumunum frá því bangsinn var búinn til.

Brúni liturinn inn í eyrunum er ekki upprunalegur, heldur var brúnu efni saumað á þegar ég fór með bangsann í viðgerð um það leyti sem dóttir mín fæddist fyrir 18 árum. Þá voru líka límd ný augu á hann, en hann var þá búinn að vera eineygður lengi.

Augnablik vil ég vera lítil aftur og kúrikúra upp í rúmi með bangsa undir sæng...í hlýjunni.

Thursday, April 21, 2011

Páskalegt sumar!

Í tilefni dagsins finnst mér hæfandi að sýna ykkur einn af uppáhaldsvösunum mínum sem er mjög sumarlegur. Hann keypti ég á skransölu í hinni ljúfu København fyrir nokkrum árum. Ekki man ég hvað hann kostaði, en það var eitthvað lítið. Ómerkilegur er hann örugglega í augum leir- og postulínssafnara þar sem engin er merkingin á botni hans. Ég prófaði að gúggla, en fann engan sem líktist þessum vasa, sem reyndar er ekki vasi heldur kanna ("pitcher").Þessi kanna passar einstaklega vel við servíettuhringina sem móðir mín gaf mér einhvern tímann. Ekki man ég hvaðan þeir koma, en þori að veðja að þeir hafi haft viðdvöl í Kolaportinu. Hún móðir mín er einn harðduglegasti Kolaportisti sem ég þekki og hefur oftar en einu sinni dottið niður á fágæta fallega muni.Gleðilegt sumar!

Saturday, April 16, 2011

Af hestum og köttum

Jæja, þá er að stíga mín fyrstu bloggskref og marka spor í netheimum. Byrja bara rólega og tek eitt eða kannski tvö skref í fyrstu atrennu. Ég hef fylgst með dótabloggum þeirra Þórdísar og Elísabetar undanfarna mánuði og fundið fyrir þvílíkri sælu hríslast um mig við lestur þeirra að það jaðrar við alsælu.

Já, ég heiti Guðrún og er dótafíkill.

Fíknin ágerðist með hverju innliti og það óhjákvæmilega varð ekki lengur umflúið. Og hér er fyrsta sporið í átt að bata - Dalahesturinn minn:


Þessi hestur er farinn að láta á sjá, enda úr búi ömmu minnar sálugu. Hann hefur sjálfsagt fylgt ömmu minni frá vindsömu sænsku æskuslóðum hennar yfir til sólríkra stranda Korsíku. Amma átti nokkra sænskættaða hluti sem sum hver hafa ratað til mín. Ég á örugglega eftir að draga þá fram hér. Reyndar er til annar Dalahestur hér á heimilinu sem ég finn ekki. Sá er rauður og fótbrotinn en hefur fylgt mér jafnlengi og þessi svarti. Það er vont til þess að hugsa að hann liggi kannski á köldum og dimmum stað greyið og fái ekki þá ástúð og athygli sem hann á skilið.

Í anda sænskra tréútskurðarfígúra datt mér í hug að skella inn mynd af þessum líka fína ketti. Ég hef ekki hugmynd um hvort hann sé sænskur, en óneitanlega er svipur með honum og Dalahestinum. Hann er úr tré og alls um 11 cm hár - reyndar bara 6 cm hár ef skottið er ekki talið með.