Saturday, April 30, 2011

Sól, sól, skín á mig...

Ósjálfrátt fór þetta lag að hljóma í huga mér þegar ég leit út um gluggann og horfði á snjókornin falla af léttúð til jarðar, eins og ekkert væri eðlilegra á þessum tíma árs. Lagið hljómaði ekki með gleðilegum hönnuvaldísaróm, heldur frekar eins og vonlaus bæn um eitthvað sem ekki eru miklar líkur á að verði að veruleika. Aftur varð mér hugsað til  sænsku ömmu minnar sem bjó á Korsíku á síðari hluta ævi sinnar. Hugurinn reikar til Palombaggja-strandarinnar, þar sem söngtífurnar láta hressilega heyra í sér í trjánum. Klifrað er alla leið upp á topp, þaðan sem útsýnið er stórfenglegt yfir þessa fallegu, löngu strönd - mmm...ljúfar og hlýjar æskuminningar!

Amma var nokkuð lagin í höndunum og þó hún hafi búið í villu sem í mínum barnshuga var eins og höll, þá fór hún sparlega með hluti og fjármuni. Á sumrin leigði amma húsið og fyrstu árin tjölduðu þau hjónin annars staðar allt sumarið. Síðar keyptu þau sér pínulitla íbúð í fjöllunum og dvöldu þar sumarlangt.

Amma var með stóran garð og hún hafði gaman af því að dytta í honum. Þar mátti finna hin ýmsu ávaxtatré, s.s. appelsínutré, sítrónutré, perutré og fleiri. Manni fannst ekkert vera henni ofviða og var hún dugleg að sauma og búa til hluti. Einn hlut á ég, úr hennar smiðju, sem mér þykir óendanlega vænt um. Reyndar á ég hann ekki lengur, þar sem það er í hlutarins eðli að ganga mann af manni (eða konu af konu í þessu tilviki) og er dóttir mín því réttmætur eigandi hans í dag. Það er þessi yndislegi bangsi:


Þeir voru reyndar tveir, bangsarnir, en ekki er vitað hvað varð um hinn sem var dökkbrúnn. Eldri bróðir minn, sem er einu og hálfu ári eldri en ég, fékk hann í fæðingargjöf (þ.e. þennan brúna). Ég fékk þennan hér þegar ég fæddist, fyrir tæpum 50 árum síðan. Hann er búinn til úr lambsskinni og fylltur með einhvers konar rifnu tauefni. Skinnið byrjaði að eyðast upp fyrir nokkrum árum og komið er stórt gat á mallakútann.

Þófar eru úr leðri og fagmannlega saumaðir á skinnið, því ekki hefur raknað úr saumunum frá því bangsinn var búinn til.

Brúni liturinn inn í eyrunum er ekki upprunalegur, heldur var brúnu efni saumað á þegar ég fór með bangsann í viðgerð um það leyti sem dóttir mín fæddist fyrir 18 árum. Þá voru líka límd ný augu á hann, en hann var þá búinn að vera eineygður lengi.

Augnablik vil ég vera lítil aftur og kúrikúra upp í rúmi með bangsa undir sæng...í hlýjunni.

1 comment: